Aumingja Ísland // Poor Iceland

AUMINGJA ÍSLAND, TIL HAMINGJU!

Þetta afmælismyndband er brot úr heimildarmynd í vinnslu. Við sem að myndinni stöndum ákváðum að deila þessum fallegu minningum með íslensku þjóðinni á þessum tímamótum, rifja upp á veraldarvefnum, baráttu, vonir og þrár almennings á Íslandi sem virðast hreinlega hafa gufað upp. Þetta eru allavega draumkenndar kvikmyndatökur á þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar og búsáhaldabyltingarinnar, til hamingju.


Hér má sjá Íslendinga sem skunduðu ekki á Þingvöll heldur á Austurvöll til að treysta sín heit og reyndu að bylta því óstjórnarsamfélagi spillingar, siðblindu og botnlausrar græðgi fjárglæframanna; óstjórnarsamfélagi sem endanlega hrundi yfir allan almenning í landinu. Með þrautseigju og baráttugleði tókst fólkinu að knýja fram uppgjöf hrunstjórnarinnar og kalla fram nýjar kosningar. Sjáið gleðina og einbeittan viljann sem skín úr augum almennings í afmælismyndbandinu, til hamingju.

Nú þremur afmælisárum síðar hefur helstu pólitíkusum hrunsins verið komið í góð embætti hjá alþjóðlegum stofnunum fyrir ömurlega illa unnin störf fyrir land og þjóð. Halldór Ásgrímsson í Kaupmannahöfn, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í Kabúl, Árni Matthiesen í Róm og margir hrunverjar sitja enn á Alþingi með Jóhönnu Sigurðardóttur f.v. ráðherra í hrunstjórninni sem forsætisráðherra, til hamingju.

Staða forsætisráðherrans f.v. sem stýrði þjóðinni í þrot er reyndar enn óráðin, líkt og staða Forsetans, sem sýnir á sér ekkert fararsnið eftir sextán ár í embætti.

Aumingja Ísland, til hamingju.

Ari Alexander Ergis Magnússon, kvikmyndagerðarmaður
Jón Proppé, heimspekingur

ghostigital’s bank is used for this clip. Anniversary clip.