MRC Riddims og Ghostigital & vinir á Harlem

MRC RiddimsTvíeykið MRC Riddims frá New York (nánar tiltekið Harlem) leikur á tónleikum á nýopnuðum innri sal Harlem sem var áður Volta.
Ghostigital, AMFJ og Lord Pusswhip spila einnig í partíinu og Berglind Ágústsdóttir kemur sérstaklega fram með sín eigin lög í miðju setti MRC Riddims.

MRC Riddims er skipuð pródúserunum Alap Momin og Merc Yes og spila taktþunga partýtónlist og flutningur þeirra er einskonar sambland af lifandi tónlistarflutningi og DJ setti.

MRC RIDDIMS, GHOSTIGITAL OG VINIR
– Raftónlistarpartý á miðvikudag á Harlem

Harlem – Innri salur
Miðvikudaginn 17. júlí
22:00-01:00

Alap var áður í hávaðarappsveitinni Dälek sem hefur spilað tvisvar á Íslandi m.a. á Airwaves og Merc var aðal sprautan í skóglápssveitinni IfWhen. Þeir hafa komið víða við og spilað um allan heim en með þessu samstarfsverkefni hafa þeir færst frá hávaðanum og einbeita sér að grípandi og afdráttarlausum taktgerðum og blanda saman fjölmörgum straumum og stefnum. Allt frá minimal techno, dancehall, dubstep, Juke til house og allt þar á milli. Þeir hafa gert fjölmargar endurhljóðblandir og nýlega kom út split plata með þeim og Karaoke Tundra.
 
Alap Momin hefur sterka tengingu til Íslands en Dälek hefur verið gestur á tveimur síðustu plötum Ghostigital auk þess sem Alap hljóðblandaði “Division of Culture and Tourism” sem kom út í fyrra. Alap hefur einnig pródúserað færeysku tilraunasveitina Orka og hefur einnig spilað með þeim hér á landi auk þess að hljóðblanda fyrir fleirri áhugaverðar færeyskar hljómsveitir. Berglind Ágústsdóttir kynntist Alap þegar þau bjuggu bæði í Berlín og voru í sömu tónlistar- og klúbbasenunni þar. Þau hafa gert lög saman en Berglind syngur nokkur af eigin lögum inní settinu hjá MRC Riddims.

Raftónlist úr öllum áttum verður í boði á kvöldinu á miðvikudaginn. Auk MRC Riddims og Berglindar spila Ghostigital ásamt Hrafni Ásgeirsyni saxafónleikara og prufukeyra ný lög í bland við eldra efni. Óhljóðapresturinn AMFJ predikar yfir söfnuðinum og taktgerðarmaskínan Lord Pusswhip kemur fram með heimadrengjunum sínum $ardu a.k.a. Svarta Laxness og Alfreði Drexler. Gaman af því.

Raftónlistarpartíið hefst klukkan 22:00 og það kostar 1000 kr. inn.
Daginn eftir partýið á Harlem halda MRC Riddims og Berglind Ágústsdóttir til Seyðisfjarðar þar sem þau spila í partýi á LungA. Svo liggur leiðin til Færeyja þar sem MRC Riddims koma fram á G! Festival og þeyta svo plötum í Þórshöfn.